Gjöf frá Krabbameinsfélagi Austurlands

Við í Tjarnarskógi ásamt sex leikskólum á Austurlandi fengum góða gjöf frá Krabbameinsfélagi Austurlands. Fyrir hönd félagsins afhenti Jóna Björg Sveinsdóttir gjöfina sem var sólarvörn fyrir allar deildir leikskólans. Við þökkum þeim kærlega fyrir gjöfina og fögnum því að sú gula sé farin að láta sjá sig.

Eitt af markmiðum Krabbameins­félagsins er að fækka þeim sem fá krabbamein með öflugum forvörnum. Sólarvarnir skipta miklu máli fyrir alla og sérstaklega fyrir börn, sem eru viðkvæmari fyrir sólargeislum, en skaði af völdum sólar getur leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni.
Á Íslandi þarf að huga að sólarvörnum frá apríl fram í september, sér í lagi milli klukkan 10 og 16. Þetta er tíminn sem mörg börn eru í leikskóla og því mikilvægt að þar sé gætt vel að sólarvörnum. Krabbameinsfélagið hefur útbúið gátlista um sólarvarnir leikskólabarna fyrir annars vegar leikskóla og hins vegar foreldra. Hægt er að skoða gátlistana HÉR á íslensku, ensku og pólsku.