Í Tjarnarskógi er unnið eftir fjölgreindarkenningar Howards Gardners og er unnið í fjórum lotum yfir árið - tvær greindir í einu. Við viljum bjóða upp á fjölbreytt námstækifæri, margvíslegar námsleiðir og takmarkalausan efnivið - óháð aldri og kyni, því við vitum að það læra ekki allir á sama hátt og eftir sömu leiðum.
Greindirnar átta eru:
Málgreind er hæfileikinn til að vinna með tungumál. Fólk með sterka málgreind hefur gjarnan mikinn orðaforða, skrifar góðan texta, á auðvelt með að flytja ræður og að læra erlend tungumál. Rök- og stærðfræðigreind er hæfileikinn til óhlutbundinnar hugsunar, rökhugsunar og að vinna með tölur og mynstur. Fólk með sterka rök- og stærðfræðigreind er gjarnan gott í stærðfræði, vísindum og forritun, svo dæmi sé tekið. Rýmisgreind er hæfileikinn til sjón- og rúmskynjunar. Hafi menn sterka rýmisgreind eiga þeir auðvelt með störf þar sem unnið er með liti, lögun, form svo sem listir, handverksgerð og arkitektúr. Líkams- og hreyfigreind er hreyfigeta og færni til líkamstjáningar. Góð samhæfing og líkamsstyrkur einkenna þá sem hafa góða líkams- og hreyfigreind. Dansarar og íþróttamenn falla flestir í þennan flokk. Tónlistargreind er hæfileikinn til að vinna með, meta og skapa tónlist. Fólk með sterka tónlistargreind er taktnæmt og hefur gott tóneyra. Samskiptagreind er hæfileikinn til að hafa samskipti við og skilja aðra, svo sem að ráða í látbragð þeirra og raddblæ. Fólk með sterka samskiptagreind sómir sér oft vel sem kennarar, stjórnmálamenn eða sölumenn. Sjálfsþekkingargreind er þekking á sjálfum sér, svo sem að þekkja styrk sinn og veikleika, tilfinningar sínar, hugsanir og langanir, og hæfni til að nýta þessa þekkingu sér til framdráttar. Fólk sterkt á þessu sviði hefur gjarnan áhuga á trúmálum og sálfræði. Umhverfisgreind er hæfileikinn til að greina og meta hluti í náttúrunni. Fólk með sterka umhverfisgreind er næmt fyrir umhverfi sínu: Jurtum, dýrum, fjöllum, skýjafari og svo framvegis. Það er gjarnt til að velja sér starfsgreinar eins og náttúrufræði og umhverfisfræði. |