Eitt af hlutverkum leikskólans er að fylgjast með þroskaframvindu hjá nemendum. Til eru ýmar skimanir sem hægt er styðjast við til að finna þá þætti sem vinna þarf sérstaklega með.

Eftirfarandi skimanir eru lagðar fyrir öll börn í Tjarnarskógi:


TRAS er skráningarlisti til notkunar fyrir leikskólakennara til að fylgjast með máltöku tveggja til fimm ára barna. Skráning er gerð tvisvar sinnum á ári, með sex mánaða millibili. Hvert barn á sitt skrániningarblað sem fylgir því í gegnum leikskólagönguna. Listinn er upprunalega kominn frá sérfræðingum við norskan háskóla og sérkennslustofnanir og er notkun hans nú orðin útbreidd á Norðurlöndum. Góður málþroski skiptir miklu máli fyrir andlegan þroska barna, félagslega líðan og seinni lestrartileinkun. Með TRAS skráningunni er hægt að skima eftir frávikum í mál- og félagsþroska barnanna með fyrirbyggjandi íhlutun í huga. Leikskólakennarar þurfa að sitja námskeið til þess að fylla út Tras skráningu.

TRAS skráningarlistinn er ekki málþroskapróf heldur athugun í skráningarformi á málhegðun og málþróun hjá börnun á ákveðnum aldri. Ekki erum eiginlega fyrirlögn að ræða heldur leitar sá kennari, sem best þekkir barnið, svara við spurningunum á skráningarlistanum með því að fylgjast með barninu í leik og starfi.

Spurningarnar á TRAS listanum flokkast undir í þrjú færnisvið sem hvert um sig á ákveðinn lit á skráningarblaðinu.

1. Samleikur, tjáskipti/samskipti og athygli/einbeiting.

2. Málskilningur og málmeðvitund.

3. Framburður, orðaforði og setningamyndun.


EFI-2 er málþroskaskimun fyrir nemendur á fjórða ári. Niðurstöður geta gefið ýmislegt til kynna s.s. hvort leita þurfi til talmeinafræðings. Barn og kennari eiga rólega stund og skoða saman myndabók. Svör barnsins gefa vísbendingu um hvar það er statt í málþroskaferlinu. Þessi skimun kannar málskilning og tjáningarfærni barnsins, tilgangurinn er að finna þau börn sem þurfa á stuðningi að halda. Með því að finna börn með málörðugleika er hægt að bæta úr því með snemmtækri íhlutun. Góður málþroski er nauðsynleg undirstaða lestrarnáms í grunnskóla en ekki síst fyrir lífið sjálft.

MOT  MOT 4-6  er hreyfiþroskapróf sem má nýta til að mæla hreyfiþroska barna á aldrinum 4-6 ára.  Prófið er lagt fyrir alla nemendur í næst elsta árgangi Tjarnarskógar.  Verkefnin eru 18 talsins og kanna líkamsliðleika, samhæfingu, fínhreyfingar, jafnvægi, viðbragðshæfni, stökkkraft, hraða og nákvæmni hreyfinga. Gefin eru stig fyrir hverja æfingu sem eru svo lögð saman. Heildarstigin gefa ákveðna hreyfitölu út frá aldri. 

Hljóm 2 er aldursbundin skimun sem er lögð fyrir til að meta hljóðkerfis- og málvitund barna í elsta árgangi leikskólans. Skimunin er framkvæmd í því skyni að greina þau börn sem eru í áhættu vegna lestrarerfiðleika þegar formlegt lestrarnám hefst.  Undanfarna áratugi hefur mikil áhersla verið lögð á að börnum sé strax frá unga aldri boðið markvisst upp á leiki og verkefni til að örva hljóðkerfis- og málvitund þeirra. Leikskólaárin eru því sérlega mikilvæg fyrir snemmtæka íhlutun.