Leikskólinn Tjarnarskógur varð til við sameiningu leikskólanna Skógarlands og Tjarnarlands í ágúst 2012 og er starfræktur á tveimur starfstöðvum (Skógarland & Tjarnarland). Tjarnarskógur er níu deilda leikskóli með um 174 nemendur á aldrinum eins til fimm ára. Á Skógarlandi eru sex deildir, Lyng, Lauf, Barr, Kjarr, Rjóður og Lundur og nemendur eru á aldrinum eins til fjögurra ára. Á Tjarnarlandi eru þrjár deildir, Hamrabær, Skógarbær og Tjarnarbær og nemendur eru á aldrinum fjögurra til fimm ára.
Heiti skólans "Tjarnarskógur" var fengið með nafnasamkeppni og bárust fjöldamargar tillögur en það kom í hlut fræðslunefndar að velja úr þeim og fékk Tjarnarskógur flest atkvæði.
Saga Skógarlands
Leikskólinn er teiknaður af Arkís og bygggður af Íslenskum Aðalverktökum. Gert var ráð fyrir strax í upphafi að leikskóladeildir skólans yrðu sex á endanum en einungis fjórar leikskóladeildir voru byggðar í fyrstu.
Leikskólinn var formlega opnaður þann 3. september 2005 af Eiríki Björgvinssyni bæjarstjóra. Gestum á opnunarhátíðinni gafst kostur á að koma með tillögu um nafn á leikskólann og leikskóladeildirnar. Leikskólinn fékk síðan nafnið Skógarland og deildirnar frá þeirri yngstu til þeirrar elstu nöfnin: Lyng, Kjarr, Rjóður og Lundur.
Nokkru áður eða þann 8. ágúst hófst starfsemin á tveimur deildum og skömmu síðar eða 1. september var eins árs deildin opnuð. Til að byrja með voru einungis 10 börn á yngstu deildinni. Barnafjöldinn hefur aukist jafnt og þétt frá opnun leikskólans og í febrúar 2007 voru allar deildirnar fjórar þétt setnar.
Í byrjun árs 2007 var tekin ákvörðun í bæjarstjórn að ljúka við byggingu leikskólans fyrir haustið 2007. Íslenskir Aðalverktakar hófu framkvædir í byrjun apríl og luku þessum tveimur deildum í september 2007. Fimmta deild skólans, Lauf opnaði 10. september og voru 16 börn á aldrinum eins til tveggja ára á deildinni til að byrja með á henni. Nemendur Skógarlands eru þá orðnir 108 talsins.
Haustið 2008 var sjötta og síðasta deild skólans, Barr opnuð. Allur skólinn er því komin í notkun og í fullskipuðum skóla er nemendafjöldinn orðinn 132 nemendur og um 40 starfsmenn. 20 börn eru á deildum í yngri barna álmu en 24 börn á deild í eldri barna álmu.
Saga Tjarnarlands
Leikskólinn Tjarnarland á sér þó nokkra sögu, en sú saga er samofin myndun kauptúns á Egilsstöðum. Dagheimili, eins og leikskólar voru nefndir á þessum tíma, var opnað þann 4. september árið 1979 að Tjarnarlöndum 10-12. Þessu nýja húsi var gefið nafnið Tjarnarland. Fyrstu árin var skólinn rekinn sem tveggja deilda tvísetinn leikskóli fyrir 2-5 ára börn. Deildirnar hétu Dvergadeild (2-3 ára börn) og Álfadeild (4-5 ára börn).
Fljótlega kom í ljós að nýja húsnæðið fullnægði ekki þeirri þörf sem því var ætlað. Árið 1983 var lögð fram krafa um viðbyggingu frá foreldrum og starfsfólki dagheimilisins. Ákveðið var að hefjast handa við verkið og átti viðbyggingin að hýsa tvær deildir, sal ásamt starfsmanna- og listaaðstöðu. Árið 1989 var byggingin tilbúin og tekin í notkun og við það breyttist vinnuaðstaða í leikskólanum mjög mikið. Öllum deildum leikskólans var þá gefið nýtt nafn og eru þær nafngiftir sóttar í staðhætti umhverfisins, Hamrabær (eldra húsnæðið), Tjarnarbær og Skógarbær. Hamrabær varð blönduð deild fyrir heilsdagsbörn en nýju deildirnar aldursskiptar fyrir hálfsdagsbörn, Tjarnarbær 2-3 ára og Skógarbær 4-5 ára.
Vegna fjölgunar nemenda varð eldhúsið fljótlega of lítið til að fullnægja þeim kröfum sem til var ætlast og var því byggt við það árið 1998. Eftir þær úrbætur gátu allir nemendur fengið heitan mat í hádeginu. Árið 1999 var húsnæðið enn og aftur orðið of lítið og þá var brugðið á það ráð að leigja kjallara í Hótel Valaskjálf undir fjórðu deild leikskólans sem hlaut nafnið Frábær. Þetta var bráðabirgðaaðstaða en þó starfaði deildin þar í 4 ár og þurfti að flytja þaðan í annað bráðabirgðahúsnæði við Tjarnarás. Þar starfaði hún til ársins 2005.
Í maí 2007 var samþykkt í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs að Tjarnarland yrði 5 ára skóli sem tæki við öllum 5 ára leikskólanemendum úr skólahverfi Grunnskólans Egilsstöðum og Eiðum. Yngri nemendur fá að klára skólagöngu í Tjarnarlandi og má því reikna með að haustið 2009 verði Tjarnarland orðinn aldurshreinn 5 ára skóli.